Íslenskuð erlend jólalög

Þessi færsla er tileinkuð fólki sem er að læra íslensku og því er fyrsta málsgreinin á íslensku og ensku. Hins vegar var ég of löt til þess að skrifa meira á ensku.
Til viðbótar við nokkur ítölsk dægurlög sem hafa verið sett í jólabúning þá hafa mörg vinsæl erlend jólalög verið þýdd og sungin á íslensku. Eftirfarandi eru nokkur þeirra sem má búast við að heyra í útvarpi, sjónvarpi eða á lagalistum á Spotify í kringum jólahátíðina.
This post is dedicated to people learning Icelandic which is why the first paragraph is in both in Icelandic and English. I was too lazy to write more in English.
In addition to Italian pop songs that have been transformed into Icelandic Christmas songs, many popular Christmas songs have been translated and sung in Icelandic. To follow are a few of those that you can expect to hear on the radio, on TV, or on Spotify playlists around the Holidays.

Snjókorn falla

Merry Christmas Everyone, einnig þekkt sem Snow is Falling, var gefið út árið 1985 og flutt af Shakin Stevens. Íslenskur texti er eftir Jónatan Garðarsson og var íslenska útgáfan upphaflega flutt af Ladda.
Mér finnst þetta lag vera eitt af þeim sem eru meira spiluð í útvarpinu en önnur lög. Fyrir neðan má sjá myndband eftir aðdáendur lagsins með flutning Ladda í bakgrunni.

Jólasveinninn minn

Lagið Here Comes Santa Claus var upphaflega samið af Oakley Haldeman árið 1947. Texti og flutningur voru í höndum Gene Autry. Ómar Ragnarsson samdi íslenskan texta og var það gefið út árið 1964 og þá flutt af Elly Vilhjálms og Ragnari Bjarnasyni. Elly Vilhjálms (1935-1995) og Raggi Bjarna (1934) eru meðal frægustu söngvara Íslands. Enn þann dag í dag eru mörg lög flutt af þeim spiluð í útvarpinu, þá sérstaklega á Rás 1. Raggi kemur enn þá fram og syngur.
Fyrir neðan má sjá flutning Borgardætra af laginu.

Snæfinnur snjókarl

Frostie the Snowman var upphaflega samið af Walter Rollis og Steve Nelson, flutningur var einnig í höndum Gene Autry árið 1950. Íslenskur texti er eftir Hinrik Bjarnason. Fyrir neðan má sjá upptöku frá Íslandi í dag þar sem tvær krúttlegar stelpur flytja lagið.

Ég sá mömmu kyssa jólasvein

I Saw Mommy Kissing Santa Claus kom fyrst út árið 1952 í flutningi hins 13 ára Jimmy Boyd. Lag og texti voru eftir Tommie Connor. Íslenskur texti er einnig eftir Hinrik Bjarnason.
Þetta er lag sem börnum finnst alveg einstaklega gaman að syngja með og einhvernvegin virðast þau öll kunna textann við lagið. Hér fyrir neðan má sjá tvo krúttlega stráka syngja lagið.

Um höfundinn Skoða allar færslur

Þórey Rúnarsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *