100 dagar af líkamsrækt

Árið 2014 stundaði ég einhverskonar hreyfingu á 100 mismunandi dögum árið 2014. Allt frá göngutúrum til lyftinga.

Já, ég taldi.

Mér finnst rosalega gott að rekja og skrá allskyns hluti í lífi mínu. Ég prófaði það fyrst veturinn 2008-2009. Síðan þá hef ég haldið utan um allskyns hluti með misgóðum árangri. Sumt hefur gengið mjög vel, eins og til dæmis tímaskráningar fyrir skólann og líkamsræktarskráningin mín núna síðastliðið ár, aðrar skráningar hafa dottið upp fyrir með eftirsjá.

Límmiðadoppur sem ég keypti í A4

Límmiðadoppur sem ég keypti í A4

Ég á mjög erfitt með að muna suma viðburði og tímabil í lífi mínu og hef oft fundist ég „hafa ekki gert neitt“. Eitt af þeim atriðum sem ég var aldrei almennilega með á hreinu var hversu oft ég stundaði líkamsrækt og fannst oft eins og ég færi sjaldan í ræktina að undanskildum formlegum æfingum. Allar þessar skráningar hjálpa til við að sýna fram á hið andstæða.

Ég nota Endomondo í hvert sinn sem ég fer út að hlaupa eða ganga og er byrjuð að skrá inn sundið þar líka. Það er ágætt app þar sem maður getur séð allskyns tölfræði og samantektir. Það er hins vegar ákveðinn ókostur við að hafa skráningarkerfi á rafrænu formi sem þjónar einning þeim hliðartilgangi að hvetja mann áfram. Til þess að það hvatningin virki þá þarf kerfið að vera áþreifanlegra.

Líkamsræktarskráning ársins 2014

Líkamsræktarskráning ársins 2014

Í upphafi ársins bjó ég til dagatal sem ég prentaði út á tvö A4 blöð, 6 mánuði á hvort, og keypti mér doppulímmiða í þremur litum. Ég flokkaði mismunandi tegundir af æfingum eftir litum þannig að innanhúshreyfing er rauð, sund er blátt og útivera er græn. Ég fyllti inn dagatalið mitt samviskusamlega allt árið og er almennt sátt við útkomuna. Þessi hvíldartímabil voru talsvert færri og styttri heldur mér hefur ætíð fundist.

Ég mæli eindregið með þessu fyrir allt gleymskufólkið þarna úti og þá sem eiga erfitt með að halda sér við efnið.

Fyrir áhugasama þá bjó ég til pdf skjal með dagatali ársins sem er hægt að prenta út. Ég mæli með að hengja það upp til dæmis inn í fataskáp eða á ísskápinn.

 

 

Um höfundinn Skoða allar færslur

Þórey Rúnarsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *