Að álykta út frá einkunnum

Haustið 2008 byrjaði ég á því að taka saman þann tíma sem ég nýtti til lærdóms við háskólann. Ég skráði inn alla þá tíma sem fóru í að sitja fyrirlestra, lesa námsefnið og að gera verkefni. Tilgangurinn var tvíþættur, að sjá hversu mikla vinnu ég þyrfti að leggja á mig til þess að fá 10 í lokaeinkunn og hvort námið væri eins og 100% vinna.

Fyrstu niðurstöður eftir eina önn gáfu til kynna að námið mitt væri svipað fullri vinnu, hins vegar var ég í 120% námi. Engin svör var að fá við fyrstu spurningunni. Í raun virtist vera veik neikvæð fylgni á milli þess tíma sem ég lagði í námið og einkunna. Við nánari athugun kom í ljós að það var talsvert meiri fylgni á milli þeirrar þekkingar sem ég hafði tileinkað mér áður og lokaeinkunna, og þá helst í stærðfræði. Ég lauk aðeins 9 einingum í stærðfræði í menntaskóla og vissi ekki fyrir fimmaur hvað logarithmi eða diffrun væri, sem eru nauðsynleg atriði til að kunna fyrir nám hagfræði.

Ég hélt áfram að halda utan um þann tíma sem fór í námið á næstu önn og síðan skólaárið 2013-2014. Þá hafði ég skráð mig til náms í verkfræði og tölvunarfræði til þess að fá betri grunn í stærðfræði fyrir núverandi meistarnám. Það borgaði sig en námið reyndist hins vegar þrautinni þyngri og ég lærði næstum yfir mig.

Niðurstöður þessara fjögurra anna má sjá á grafinu hér fyrir neðan. Það sýnir einn punkt fyrir hvert námskeið.

Einkunn sem fall af tíma á eininguSérð þú mynstur? Já, ég sé að ég fékk oft 8 og aldrei 7,5 þegar þessar mælingar stóðu yfir ekki mikið meira. Það hjálpar auðvitað ekki að það eru ekki margar athuganir í þessu gagnasafni. Athugið að y-ásinn byrjar á 5.

Ef maður skoðar fleiri gröf þá getur maður séð að ég var talsvert duglegri á haustönn 2013 miðað við aðrar annir. Það skólaár tók ég talsvert af stærðfræðifögum sem ég hafði allt of lítinn grunn fyrir og sagði mig oftar en einu sinni úr námskeiði þar sem ég sá fram á að læra of lítið og fór í önnur erfiðari námskeið.

Einkunn sem fall af tíma á einingu eftir önnSkólaárið 2008-2009 voru öll námskeiðin sem ég tók 6 einingar sem þýðir að ég tók 36 og 42 einingar það ár. Það þarf líklegast ekki að nefna það en ég hafði talsvert mikinn áhuga á skilvirkni á þessum tíma. Ég reyndi að taka 48 einingar á seinni önninni en það tókst ekki og ég hætti í einu fagi. Lítill grunnur í stærðfræði var að aftra mér.

Á næstu mynd má sjá þetta flokkað eftir deildum. Þá sést að dreifnin er mest í hagfræðinni.

Einkunn sem fall af tíma á einingu eftir deildum

Af hverju er ég að birta þetta núna?

Ég sótti um skólastyrk um daginn og var ekki valinn. Kannski var umsóknin mín ekki mjög sannfærandi en vinur minn sagði að það væri mjög mikið litið á einkunnir þegar skólastyrkir eru annars vegar. Ég leit á einkunnirnar mínar og sumar þeirra voru ekki fallegar, sérstaklega á vorönn 2014, en það er það eina sem þær eru, ekki fallegar.

Ég benti á það að einkunnir segja mest til um núverandi kunnáttu. Hans svar var: „…það er samt mun meiri fylgni a milli góðra einkunna og læra mikið… myndi ég halda“. Hann var dúxinn sem lærði allan sólarhringinn. Semidúxinn lyfti varla fingri.

Hvaða ályktun getum við þá dregið af einkunnum?

  • Hvort þú hafir ákveðna þekkingu.
  • Hvort þú kunnir að taka próf.

Hvaða ályktun getum við ekki dregið?

  • Hvort þú hafir lært yfir veturinn.
  • Hvort þú getir unnið undir álagi.
  • Hvort þú vinnur vel með öðru fólki.
  • Hvort þú sért skapandi í hugsun.
  • Hvort þú takir frumkvæði.
Hverjar eru afleiðingarnar?

Afleiðingarnar á því að leggja mikla áherslu á einkunnir eru að nemendur sem sækjast eftir háum einkunnum veigra sér fyrir því að taka krefjandi en gagnlega áfanga. Fólk tekur léttari áfanga og þá sérstaklega þá sem hægt er að „læra bara utan að gömul próf“.

Um leið og þetta ferli er byrjað þá heldur það áfram. Sleppa stærðfræði einu sinni og framvegis ertu farinn að sleppa öllu sem gerir kröfu um færni í stærðfræði. Fyrr eða síðar er allt uppfullt af fólki með B.A.-gráður í hinum ýmsu félags- og hugvísindum en skortur á tæknimenntuðu fólki.

Ef þú hefur áhuga á að skoða tengsl einkunna og árangurs seinna á lífsleiðinni þá er hérna hlekkur á eina rannsókn, The Relationship Between College Grades and Adult Achievement: A Review of the Literature. Í samantekt hennar segir meðal annars:

„Although this area of research is plagued by many theoretical, experimental, measurement, and statistical difficulties, present evidence strongly suggests that college grades bear little or no relationship to any measures of adult accomplishment.“

Ég fann einnig eina rannsókn sem sýndi fram á fylgni milli einkunna á síðasta ári í High School og fyrsta ári í College í Bandaríkjunum. Það kemur ekki á óvart enda um svipaðar aðstæður að ræða.

Ég notaði ekki mikið af tölfræði fyrir þessar greiningar en ef þú vilt skoða gögnin þá er hér Excel skjal með tímaskráningum. Ef þú kemst að annarri niðurstöðu sendur mér þá endilega tölvupóst með líkaninu og ég mun skrifa nýja færslu um niðurstöður þínar.

Um höfundinn Skoða allar færslur

Þórey Rúnarsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *