Framkoma eldra fólks

Strætó í útlandinu stóra

Strætó í útlandinu stóra

Í gær kom litla frænka mín í heimsókn til Reykjavíkur. Hún er reyndar ekki jafn lítil og hún var þegar hún fæddist fyrir rúmum 14 árum síðan en hún mun alltaf vera lítil fyrir mér.

Hún tók strætó með jafnöldru sinni frá Selfossi til þess að skoða stórborgina auk fleiri ungmenna frá Selfossi. Það var frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu vegna Menningarnætur og því var einu gjaldsvæðinu ódýrara að ferðast til borgarinnar. Það kostaði því þrjá strætómiða í stað fjögurra að fara til Reykjavíkur. Stóra frænka, ég, hringdi til þess að fá þetta staðfest og sagði stelpunum að þær ættu að passa sérstaklega upp á að borga bara þrjá miða. Ég hef lifað nógu lengi til þess að vita að það eru ekki alltaf allir á sömu blaðsíðunni innan fyrirtækja eða stofnana og því væru einhverjar líkur á að bílstjórinn vissi ekki af þessu.

Svo var raunin en þegar þær segja frá því að ég hafi hringt í Strætó bs. og fengið þær upplýsingar að þær ættu bara að borga þrjá miða þá tók hann þær ekki trúanlegar, sagði að það þýddi ekkert að hringja í Strætó bs. og skikkaði þær til þess að borga fjóra miða. Stelpurnar fengu þær upplýsingar frá öðrum krökkum sem komu inn á eftir þeim að þau hafi einungis verið rukkuð um þrjá miða. Skilaboðin frá höfuðstöðvunum höfðu þá borist bílstjóranum en ekki fyrr en eftir að þær voru komnar inn.

Þegar ég frétti af því að bílstjórinn hafi vaðið yfir þær og látið þær greiða of mikið þá hringi ég aftur í Strætó bs. og sá sem ég talaði við sagðist myndu hafa samband og láta hann endurgreiða stelpunum tvo miða. Það gerðist ekki og þegar þær fóru að biðja um miðana endurgreidda þá fengu þeir neikvætt svar um að það væri ekki hægt. Eftir enn eitt símtalið til Strætó bs. og fleiri afsökunarbeiðnir þá endaði það svo að núna er bréf í póstinum á leið heim til frænku minnar með endurgreiðslu á ofgreiddum strætómiðum.

Boðskapur þessarar sögu er ekki fjöldi gjaldsvæða hjá strætó.

Eitt sinn var ég sjálf unglingur og staðreyndin er sú að sumt fólk dregur trúverðuleika ungmenna sífellt í efa og vaða yfir þau. Óharðnaðir unglingar þora ekki alltaf að standa fyrir máli sínu og það hafa ekki allir foreldra, frænkur, afa eða aðra nákomna til þess að tala fyrir þeirra hönd.

Foreldrar mínir gerðu sjálf lítið af því vera með vesen fyrir mína hönd. Ég hafði sjálf margoft samband við fyrirtæki og stofnanir þegar ég taldi mig hlunnfarna en samt sem áður ekki við öll þau tilefni þar sem það hefði verið gott að láta í sér heyra. Ég var sú eina í mínum vinkonuhóp sem þorði þessu og oftar en ekki fannst jafnöldrum mínum þetta skrítið og eiginlega bara frekar hallærislegt. Bæði þau sem áttu foreldra sem sinntu þessum málum og hin sem áttu foreldra sem voru alveg jafn óhörðnuð og þau og því var alltaf vaðið yfir þau.

Þegar trúverðugleiki manns er dreginn í efa af ástæðulausu þá hættir maður að láta í sér heyra og margir byrja að bæla niður reiðina sem kemur þegar maður eru hlunnfarinn eða ranglega ásakaður um að fara með rangt mál. Oftar en ekki fellur maður í þá gryfju að lifa eftir því. Það er að segja: „ef þau ætla að koma fram við mig eins og ég sé að stela, þá gæti ég alveg eins stolið“. Það gerði ég í það minnsta. Það er að segja, svindlaði eða hjálpaði einhverjum að svindla sér inn í strætó eða hnupplaði nammi út í búð. Mér var alveg sama um afleiðingarnar af því að ég hafði oft verið ranglega ásökuð áður, sérstaklega þegar ég ég klæddist ákveðnum tegundum af fatnaði, áður en ég byrjaði nokkurn tímann að gera eitthvað rangt.

Til þess að ná árangri í lífinu þá þarf maður að læra að standa á sínu. Að þaggað niður í ungu fólki eða véfengja það fyrir það eitt að vera á ákveðnu aldursskeiði brýtur niður sjálfstraustið þeirra og hamlar þeim í lífinu.

Hvernig kemur þú fram við ungt fólk?

1 athugasemdSkilja eftir athugasemd

  • flott grein Þórey og vel skrifuð og skilmerkilega, frænka þín er heppin að eiga þig að 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *