Að hækka laun þeirra launalægstu

Fyrir stuttu var ég að hlusta á frétta- og viðtalsþáttinn Vikulokin á Rás 1. Þar var formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson á meðal viðmælenda auk rithöfundarins Þórunnar Erlu Valdimarsdóttur og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Þorsteins Víglundssonar. Þegar ég byrjaði að hlusta á 37. mínútu þá snérust umræðurnar um aðgerðir fyrri ríkisstjórnar og hvernig gengið hefði að hækka laun fólks með lægstu launin og hækkandi laun bankafólks.

Vilhjálmur tók dæmi um fiskvinnslukonu sem, eftir 15 ár í starfi, ætti rétt á 250 þúsund krónum á mánuði á sama tíma og hagnaður útgerðanna er í hæstu hæðum. Seinna talar hann um hvað þau „hafi þurft að horfa upp á“ og vísar í 8% launahækkanir hjúkrunarfræðinga umfram aðrar stéttir, 5% launahækkanir á kvennastéttir í heilbrigðisgeiranum og núna 15%-20% hækkanir hjá geislafræðingum.

Hann er að vísa í það að þau tekjulægri ná aldrei þeim tekjuhærri. Það gerist vegna þess að hinir tekjuhærri fá ætíð launahækkanir í kjölfar hækkandi launa þeirra tekjulægri. Verðbólgan tekur þá við og étur upp kaupmáttinn og því er upprunalega kaupmáttaraukning þeirra tekjulægri farin.

Það að hann taki sérstaklega fram ýmsar stórar kvennastéttir sem hafa ætíð verið of illa launaðar miðað við menntun og störf finnst mér vera hræsni. Honum finnst óviðunandi að þessar stéttir fái launahækkanir umfram aðrar stéttir þrátt fyrir að þær hafa ætíð verið illa launaðar. Launahækkanir sem ég myndi frekar kalla launaleiðréttingar.

Vandamálið sem verkalýðsfélögin eru raunverulega að kljást við er ekki hærri laun annarra stétta. Vandamálið er mikið framboð ófaglærðs vinnuafls og lítil eftirspurn atvinnurekenda eftir ófaglærðum vegna samskeppnis erlendis frá.

Með öðrum orðum, ástæður lágra launa heilla stétta eru ekki að laun séu hærri í öðrum stéttum heldur að:

  1. Laun eru lág þar sem kaupendur þjónustunnar eru mjög fáir, jafnvel bara einn aðili. Sem dæmi má nefna ríkið eða fiskvinnslu í sjávarþorpi. Það kallast einkeypi ef það er einn kaupandi þjónustunnar og fákeypi ef þeir eru fáir. Þetta er dæmi um of litla eftirspurn.Margar stórar kvennastéttir kljást við þessar markaðsaðstæður þar sem ríkið er eini eða einn af fáum kaupendum þjónustunnar. Verkalýðsfélög eru ein leið til þess að berjast á móti þeirri stöðu með því að semja sem einn aðili á móti þessum einum kaupanda þjónustunnar. Einskonar einokun á móti einkeypinu.
  2. Laun eru lág þar sem mikið er um fólk sem getur og vill vinna en færri eru störfin. Sem dæmi má nefna er flest verkafólk þar sem nóg er af fólki því lítið þarf maður að kunna til þess að hefja störf. Þetta er dæmi um of mikið framboð.

Erfitt er að auka eftirspurnina þegar það eru fáir mögulegir kaupendur af þjónustunni á markaði.

Ekki getum við haft ríkin tvö þótt hægt sé að vera með einkastofur með læknisþjónustu og einkaskóla. Einnig væri hægt að hafa fleiri fiskvinnslufyrirtæki í hverju plássi en á meðan vinnuaflið rétt rúmlega nægir fyrir eitt fyrirtæki þá mun annað ekki koma inn á markaðinn.

Hins vegar er tiltölulega auðvelt að minnka framboð vinnuafls í stað þess að reyna að auka eftirspurn sem mun lítið breytast.

Framkvæmd

Ein einfaldasta leiðin og sú sem er best fyrir þjóðfélagið í heilds sinni er að tryggja að fleiri fari í áframhaldandi nám eftir grunnskóla.

Með öðrum orðum, verkalýðsleiðtogarnir ættu að nýta orkuna sína í að þrýsta á stjórnvöld til þess að skapa aðstæður þar sem allir sem geti og hafi áhuga á, fari í nám. Í stað þess það sama fólk festist í láglaunastörfum vegna aðstæðna sem hamla því að þau fari í ólaunað og ólánshæft framhaldsskólanám eða bíði með að fara í nám í 10-15 ár þar til börnin eru komin á unglingsaldur.

Þannig minnkar verulega hópur þeirra ófaglærðu og því fækkar augljóslega þeim sem sækast eftir störfum sem krefjast engrar menntunar. Þá hafa þau sem eftir eru vogarafl þar sem samningsstaðan er orðin mun betri vegna þess að færri eru að bítast um bitana en áður.

Af hverju er þetta ekki gert?

Hér er hins vegar komið upp vandamál sem kallast freistnivandi. Það er það vegna þess að þegar það fækkar í verkalýðshópnum þá fækkar greiðandi félagsmönnum í þeirra félög. Færri greiða þá í félögin og því verður minna um fé til þess að greiða starfsfólki og leiðtogum verkalýðsfélaganna laun.

Þar að auki er ekki víst að félagsmenn myndu kjósa sér formenn sem myndu hafa þetta á stefnuskránni. Með öðrum orðum, það er ekki víst að Jón sjái að aukin menntun Gunnu muni koma sér vel fyrir Jón.

Önnur stéttarfélög

Önnur stéttarfélög geta náð sama árangri með því að stefna að sambærilegu markmiði. Það er að segja, að minnka framboð þeirra félagsmanna á markaðnum. Það er auðvitað gegn því sem ég talaði um áðan, að best væri fyrir þjóðfélagið að fólk ljúki námi, hins vegar er þetta sem er best fyrir fagstéttirnar, óháð samfélagslegum ábáta.

Fyrir stéttir eins og grunnskólakennara og hjúkrunarfræðinga þá er hægt að ná því með því að setja fjöldatakmarkanir í námi. Í dag eru fjöldatakmarkanir í hjúkrunarfræði en það reynir lítið á þessar takmarkanir. Best væri að þrengja skilyrðin enn frekar.

Hjá grunnskólakennurum er það svo að hlutfallsleg fjölgun þeirra sem eru með B.Ed.-próf í grunnskólakennarafræði er meiri heldur en hlutfallsleg fjölgun barna á Íslandi (sjá nánar í grein hér). Samt sem áður fækkar verulega í yngstu aldursflokkum grunnskólakennara. Árið 1998 var 15% grunnskólakennara 29 ára og yngri. Árið 2012 var hlutfallið komið niður í 6%. Það segir okkur að að stór hluti þeirra sem ljúka námi fara ekki að kenna.

Félag grunnskólakennara ætti að vinna í því að þeir aðilar sem minni áhuga hafa komist ekki í námið eða geti ekki lokið náminu. Þannig þegar illa árar á almenna vinnumarkaðnum þá fljóti ekki inn þetta fólk sem er með prófið til vara og geri sveitarfélögum kleift að halda niðri laununum.

Sagan segir einnig að Kennarasambandið semji ætíð þannig að sveitarfélög megi ekki greiða hærri laun en sem nemur kjarasamningum. Ef svo er, þá þarf að fella það ákvæði niður og leyfa samkeppni á milli sveitarfélaga. Allt þetta myndi auka gæði og ýta launum kennara upp.

Til samanburðar þá er samkeppni á meðal fyrsta árs nema í lögfræði mun meiri en þeirra í hjúkrunarfræði. Þar að auki þurfa lögfræðingar að ljúka meistargráðu og sérstökum prófum til þess að geta orðið héraðsdómslögmenn og miklar reynslu til þess að verða hæstaréttarlögmenn. Svo ekki sé minnst á mikla fjárhagslega hagsmuni sem lögfræðingar þurfa oft að verja. Leitt hvað það er lítið skrifað og rannsakað um fjárhagslegan ábata góðrar hjúkrunar og menntunar.

Niðurstaða

Niðurstaðan er sú að einn lykill að hærri launum heilla stétta er að fækka í stéttinni.

Heimildir

Vinnumálastofnun – Nám er vinnandi vegur
Samkeppnispróf hjúkrunarfræðideildar
Algengar spurningar um lögfræðinámið
Nánar um fjöldatakmarkanir á Wikipedia
Hagstofa Íslands – Starfsfólk við kennslu

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *