Íslenskar bækur fyrir Kindle

Stuttu eftir að ný og ódýrari útgáfa af Amazon Kindle kom í sölu árið 2011 þá stökk ég á tækifærið. Þá var ég búin að sofa á hugmyndinni um að kaupa mér venjulegan Kindle og þar af leiðandi dýrari útgáfu í rúmlega hálft ár.

Ég sá ekki eftir kaupunum og var fljótlega byrjuð að lesa mun meira en ég hafði gert áður. Það leið þó ekki á löngu þar til mig langaði að lesa íslenskar bækur.

Á þeim tíma voru ekki margar vefverslanir á Íslandi byrjaðar að bjóða upp á rafbækur en í dag eru þær orðnar heldur fleiri. Hér fyrir neðan má sjá lista af verslunum sem ég veit að hægt er að versla íslenskar bækur fyrir Kindle. Þetta er ekki tæmandi listi og athugið að þrátt fyrir að það séu til fleiri verslanir með rafbækur þá bjóða ekki allar upp á rafbókasnið sem Kindle styður.

Kindle styðst meðal annars við Mobipocket (MOBI) rafbókasnið og þarf maður að tryggja að það sé í boði þegar maður verslar rafbækur. Annars þarf maður að fara í gegnum það ferli að brjóta læsingu á öðrum sniðum svo hægt sé að breyta þeim í snið sem Kindle getur lesið. Amazon gefur allar bækur út á AZW sniði sem er þjöppuð útgáfa af MOBI. Tækið getur einnig lesið ýmis myndasnið, HTML, PDF og Word skjöl en þau snið henta illa fyrir rafbækur.

Ein af ástæðunum fyrir því að ekki er hægt að fá allar íslenskar rafbækur fyrir Kindle er sú að Kindle les ekki læst rafbókasnið önnur en AZW og einungis Amazon má nota það. Venjulegt MOBI er notað fyrir bækur sem eru ekki gefnar út af Amazon. Þar sem tækið les ekki önnur læst snið og sumir útgefendur gera ráð fyrir því að ef maður getur afritað bækurnar sínar, þá muni maður gera það, og því forðast aðrir útgefendur MOBI sniðið. Þannig minnkar samkeppnin við Amazon í bóksölu og Amazon hagnast gríðarlega. Þrátt fyrir þessar takmarkanir þá keypti ég Kindle því tækið er svo þægilegt og þjónustan sem Amazon býður upp á svo góð.

Vefsvæði með íslenskar rafbækur fyrir Kindle

Emma og Skinna eru tiltölulega „venjulegar“ netverslanir, þar sem bæði má finna nýjar og gamlar bækur fyrir peninga og einnig margar mjög gamlar bækur þar sem höfundaréttur er útrunnin og því eru þær því fríar. Rafbókavefurinn hefur einungis frí gömul verk, þar á meðal Íslendingasögurnar. Lestu.is er skipt í tvennt, verslun og áskriftarsíðu, en ég hef enga reynslu af þeim.

Svona í lokin, fyrir áhugasama, þá er hérna stuttur lestur um af hverju tækið heitir það sem það heitir.

Heimildir

Amazon Kindle á Wikipedia
AZW sniðið á MobileRead Wiki

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *